Þingsetningarræða forseta

Þingsetningarræða forseta nú í vikunni var eftirtektarverð fyrir fleira en eitt. Hér verður aðeins staldrað við þau ummæli að endurskoða þurfi lög um forsetaembættið í ljósi umræðna undanfarna daga. Hugsanlega legg ég dýpri merkingu í þau ummæli en forsetinn sjálfur en á slíku verð ég sjálfur að bera ábyrgð.

Ég hef um nokkra hríð verið þeirrar skoðunar að endurskoða þurfi ákvæði stjórnarskrárinnar um forsetann frá grunni. Þar á ég við greinar 3-30 í stjórnarskránni. Góð vinnuregla fyrir Alþingi væri að taka þesaar 28 greinar og gera þær að sérstökum lögum utan stjórnarskrárinnar og vinna með þær þar. Þetta er í anda þess sem gildir um ríkisstjórnina sem starfar eftir sérstökum lögum utan stjórnarskrár. Að vísu tvinnast þetta nokkuð saman í áður nefndum greinum stjórnarskrárinna. En stór hluti þessara greina, það er greinar 13-30, eru arfleifð frá konungsríkinu Íslandi sem er ekki lengur til og þurfa því að breytast í þá átt sem við viljum láta gilda í lýðveldinu Íslandi. Lokagrein ætti að vera að lögin taki gildi eftir næstu Alþingiskosningar að því tilskildu að þau verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fari fram samhliða þeim kosningum og um leið falli niður greinar 3-30.

Samhliða þessu þarf að leita uppi öll ákvæði í núgildandi lögum sem eru arfleifð frá konungsríkinu Íslandi en eiga ekki lengur heima í lýðveldinu Íslandi og gera á þeim viðeigandi breytingar. Þetta á meðal annars við um ákvæðin um uppreisn æru sem ég tel að hafi verið efst í huga forsetans.

Að sjálfsögðu þarf að fara fram almenn umræða í þessu ferli um hvaða hlutverki forsetinn á að gegna í okkar þjóðfélagi. Ég læt umsögn í þeim efnum bíða betri tíma.


Ný ríkisstjórn

Ný ríkisstjórn er að tekin við völdum. Fróðlegt er því að sjá hver aðdragandi að myndun hennar hefði orðið ef tillögur stjórnlagaráðs að stjórnarskrá hefðu verið komnar í gildi og hvort menn séu vissir um að sama niðurstaða hefði fengist með aðferðafræði stjórnlagaráðs.

Fyrst ber að nefna: „Alþingi kýs forsætisráðherra.“ Forsætisráðherra hefði þannig ekki þegið vald sitt frá forseta Íslands heldur frá Alþingi. Núverandi ástand er arfleifð frá þeim tíma þegar konungur hafði æðsta vald í öllum málefnum landsins, og fór með framkvæmdavaldið, að minnsta kosti að nafninu til, en fól það sérstökum ráðgjafa sínum og síðar ráðherra.

Í öðru lagi: „Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra.“ Ef ráðherraefni að vali forsetans (gæti hér hafa verið Bjarni Benediktsson) nær ekki atkvæðum meirihluta þingmanna skal forseti endurtaka leikinn. Ef ráðherraefni númer tvö að vali forseta (gæti hér hafa verið Katrín Jakobsdóttir) nær heldur ekki meirihluta atkvæða þingmanna skal Alþingi kjósa milli þeirra manna sem tilnefndir eru af „þingmönnum, þingflokkum og forseta Íslands“. Sá sem flest atkvæði fær í þvi kjöri er rétt kosinn forsætisráðherra. (Hér hefði Birgitta Jónsdóttir getað verið tilnefnd af forsetanum, Bjarni Benediktsson af Sjálfstæðisflokki, Katrín Jakobsdóttir af Vinstri grænum, Benedikt Jóhannesson af Viðreisn, Steingrímur J. Sigfússon af sjálfum sér o.s.frv.)

Þegar hér er komið sögu á eftir að semja stefnuskrá fyrir ríkisstjórn og velja aðra ráðherra en forsætisráðherrann, og í þeim efnum verður hinn nýkjörni forsætisráðherra að láta hendur standa fram úr ermum því: „Forseti Íslands skipar forsætisráðherra í embætti. Forsætisráðherra skal samhliða skipa  aðra ráðherra í embætti.“

Allar tilvísanir innan gæsalappa hér að framan eru teknar úr grein 90 í stjórnarskrártillögum stjórnlagaráðs og að öðru leyti stuðst við þá grein.

Ég er ekki sannfærður um að aðferðafræði stjórnlagaráðs sé rétt eða heppileg. Það er að vísu jákvætt að með henni væri fækkað atriðum í stjórnarskrá Íslands sem eru eftirstöðvar af „konungdæminu Íslandi“ og eiga ekki endilega við fyrir „lýðveldið Ísland“. Væri samt ekki heppilegra að ganga skrefinu lengra með því að þjóðin kjósi forsætisráðherra samhliða hverjum Alþingiskosningum? Og hvað með að nota tækifærið og sameina embætti forsætisráðherra og forseta?

Ég legg til að væntanleg stjórnarskrárnefnd taki þetta atriði til athugunar. Auk þess legg ég til að nefndin stingi ekki tillögum sínum undir stól fram undir endanlega afgreiðslu þeirra heldur birti þær opinberlega jafnharðan þannig að þjóðinni gefist kostur á að ræða þær og meta.

Talandi um stjórnarskrána, hvernig væri að byrja loks á byrjuninni og ræða um hvaða ágallar eru á gildandi stjórnarskrá áður en byrjað er að semja viðauka við hana.


Valdhroki í boði stjórnarskrá

Í aðdraganda nýafstaðinna forsetakosninga kom vel í ljós hversu lítið stjórnarskrá landsins segir um valdsvið forsetans. Flestir voru frambjóðendurnir með einhver pólitísk markmið eins og þeir væru að fara í prófkjör vegna Alþingiskosninga. Frambjóðendurnir voru einnig mismunsndi í framgöngu. Sumir virtust auðmjúkir, jafnvel auðmjúkir fram úr hófi sumir hverjir. Einn úr hópi hinna auðmjúku náði kjöri og var það vel. Einnig bar á valdhroka meðal frambjóðenda, jafnvel enn meiri valdhroka en mátti finna hjá núverandi forseta á löngum ferli hans. Segja má að þessi valdhroki sé í boði stjórnarskrár vegna óljóss og stundum misvísandi ákvæða um valdsvið forseta. Í þessu ljósi má telja það með ólíkindum, jafnvel til háðungar starfandi stjórnarskrárnefnd, að hún skuli hafa sett sér sem meginreglu að ræða ekki um embætti forsetans í störfum sínum.

 


Höfnum minnihlutalýðræði

Stjórnarskrárnefnd er með í farvatninu tillögu um að innleiða minnihlutalýðræði í stjórnarskrá Íslands, það er að 15% kosningabærra manna geti tekið völdin af Alþingi og látið fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Þetta hugnast mér ekki. Ég hefði talið eðlilegra að stjórnarskrárnefnd hefði hugað að öðrum leiðum til að koma valdi til þjóðarinnar. Í því sambandi væri við hæfi að ákvæði um stundarsakir í stjórnarskránni sem kom inn árið 2013 verði framlengt til lífstíðar, það er verði sett inn í stjórnarskrána í stða núverandi tveggja þinga ákvæðis um samþykki breytinga. Þar með væri kominn áfangi að því að færa vald til þjoðarinnar eins og stefnt var að með ákvæði í stjórnarskránni 1942. Síðan mætti bæta við að sömu aðferð, það er þjóðaratkvæðagreiðslu, skuli viðhöfð um lög eða ályktinar frá Alþingi sem koma til með að hafa áhrif á fullveldi Íslands.

En fyrsti áfanginn er að fella í þjóðaratkvæðagreiðslu tillöguna um að innleiða minnihlutalýðræði í stjórnarskrána.

Næsti áfangi ætti síðan að vera að endurskoða ýmis ákvæði í gildandi stjórnarskrá sem ekki falla að núgildandi stjórnkerfi. Þar má nefna aðra greinina um þrískiptingu valdsins, færa hana að nútímanum, og greinar 13-30 sem í raun fjalla fyrst og fremst um valdsvið ríkisstjórnar og ráðherra en ekki um valdsvið forsetans. Í stjórnarskránni 1942, þegar búið var að ákveða að stofna lýðveldi á Íslandi, var ákvæði um að breyta sem minnstu frá þágildandi stjórnarskrá yfir í nýja stjórnarskra lýðveldisisns öðrun en því sem nauðsynlegt væri vegna lýðveldisins, það er að setja forseti í stað konungur og svo framvegis. Þó var eitt ákvæði sem féll niður, það að konungur hefði æðsta vald í öllum málum þjóðarinnar. Í staðinn var ákveðið í stjórnarskránni 1942 að æðsta valdið flyttist til þjóðarinnar. Þetta síðasttalda gleymdist þó að taka fram í lýðveldisstjórnarskránni.


Er flóttafólk nýtt vandamál?

Vandi flóttamanna er mál fréttanna í dag. Umræðan er mjög einsleit. Það þarf að hjálpa sem flestum. En kannski getur sagan kennt okkur að ástæður til flótta geta verið margar.

Flótti frá Íslandi á seinni helmingi nítjándu aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu var af ýmsum ástæðum. Slæmt veðurfar, fátækt, gróðahyggja og gylliboð að vestan hafa eflaust skipt máli.

Ísland byggðist vegna þess að ýmsir í Noregi komust í óþokka hjá ríkjandi konungi og flýðu því land. En ástæðurnar voru fleiri.

Evrópa hefur oftsinnis orðið fyrir ásókn úr ýmsum áttum gegnum aldirnar. Nefnum Germana, Langbarða og Maggyara úr austri, heilu þjóðflokkana sem voru bara að leita að betra landi til að búa í. Þá voru fyrri íbúar bara hraktir á brott. Sama gilti að einhverju leyti þegar Márar hertóku Suður-Spán og Portúgal.

Er ekki ráð að staldra við og íhuga hvort ástæður núverandi flóttamannavanda séu ekki eins einsleitar og látið er í veðri vaka. Flóttamaður kann að vera á flótta undan ofríki eða öðru ámóta í fyrri heimkynnum, Hann getur eins verið að leita betri lífsgæða en hann hefur búið við fram til þessa. Hann getur líka verið að kanna hvort henn geti ekki komist til meiri metorða eða valda annars staðar en heima fyrir. Kannski eru einhverjir að flýja frá eigin ódæðisverkum heima fyrir.

Við móttöku flóttamanna þarf að huga að mörgu. Vonandi gera ráðamenn Íslands sér grein fyrir því og láta ekki undan múgæsingu þeirri sem birtist nú í fjölmiðlum.

 


Um stjórnarskrá

Umræða um stjórnarskrá hefur tekið nokkurn fjörkipp um þessar mundir.

Forsetinn eyddi talsverðum tíma í það mál í þingsetningarræðu sinni. Hann sagði þó lítið ef nokkuð um efnislegt innihald slíks plaggs.

Þáverandi leiðtogi (e: captain) Skjalaþjófa (e: pirates) Birgitta Jónsdóttir vill að næsta kjörtímabil Alþingis verði stutt og fjalli nær einvörðungu um tvö mál. Annað þessara mála væri ný stjórnarskrá. Engin eiginleg umræða um hvert eigi að vera efnislegt innihald nýrrar stjórnarskrár fylgdi né mat á því í hverju núverandi stjórnarskrá er áfátt.

Árni Páll Árnason segir að vöntun á ákvæði um þjóðareign sjávarauðlinda í stjórnarskrá standi í vegi fyrir setningu laga um stjórnun firskveiða. Ég skora á Árna að birta skilgreiningu á orðinu þjóðareign án þess að nota orðin auðlind, sjávarútvegur eða landhelgi. Fleiri mættu spreyta sig á þessu verkefni.

Stjórnarskrárnefnd ætlar fljótlega að skila til Alþingis tillögum til breytingar á stjórnarskránni. Hér mun fyrst og fremst vera um að ræða viðauka við stjórnarskrána, til dæmis áðurnefnt þjóðareignarákvæði og ákvæði um hverjir megi krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um lagasetningu frá Alþingi. Í tengslum við fyrri viðaukann má spyrja: Hver á landið sem íslenska þjóðin byggir? Er það í þjóðareign, eða er það ekki í þjóareign? Ekkert segir um þetta í stjórnarskránni. Hér er ef til vill um svo sjálfsagðan hlut að ræða að ekki þurfi um það að ræða. En gildir þá ekki sama um sjóinn innan landhelgislínu Íslands? Spyr sá sem ekki veit.

Í tengslum við síðarnefnda viðaukann má spyrja: Hvers konar löggjöf er svo þýðingarmikil fyrir allan almenning að hún réttlæti þjóðratkvæðagreiðslu? Lítil sem engi umræða hefur farið fram á opinberum vettvangi um þetta atriði. Gott væri að byrja á því að fastsetja að slík mál þurfi atkvæði 2/3 allra alþingismann til samþykkta á þinginu og síðan meirihluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, þó ekki minna atkvæðamagn en 40% kosningarbæra manna, til að verða að lögum. Byrja má með því að gera bráðabyrgðaákvæðið um skilyrði breytinga á stjórnarskránni að varanlegu ákvæði. Greiða má atkvæði um slíka breytingu samhliða næstu forsetakosningum.

Byrja má strax á opinberri umræðu um stjórnarskrána og þá í upphafi hverju þarf að breyta, hvað eru úrelt ákvæði og hæfa ekki því stjórnarfari sem íslenska þjóðin hefur valið sér og hverra ákvæða er þörf til viðbótar.


Hver á snjóinn?

Fiskveiðistjórnunarfrumvarp strandar á þeirri spurningu að sögn hver eigi fiskinn í sjónum. Spurningin er ekki ný af nálinni. Stjórnlagaráð reyndi að ákveða svarið í eitt skipti fyrir öll í tillögum sínum að „nýrri“ stjórnarskrá. Ekki voru allir sáttir við orðalagið þar. Við þurfum nefnilega að svara mörgum spurningum áður en við svörum spurningunni um eignarhald á fiskinum.

Hvað er auðlind í náttúru Íslands? Í þessari spurningu felast fleiri en ein spurning.

Hvað felst í því að eiga náttúruauðlind? Hér er einnig fleira en eitt álitamál.

Hver á snjóinn sem fellur á hálendi Íslands? Þessari spurningu þurfum við ekki að svara til að komast að niðurstöðu um fiskinn. Spurningin getur þó verið okkur ágætt æfingarefni að leita svars við spurningunni um fiskinn.

Er umræddur snjór auðlind? Já að meðtalinni rigningunni sem fellur á sama svæði. Þegar snjórinn bráðnar og rennur til sjávar ásamt regnvatninu losnar orka  úr læðingi sem breyta má í raforku og rafmagnið er þörf auðlind.

Hver á þá snjóinn? Er hann eign þjóðarinnar eða er hann í einkaeign? Fljótt á litið virðist hann hljóta að vera í eign þjóðarinnar, að minnsta kosti að því marki sem hann fellur í óbyggðum. Og þó. Nýlega fengu bændur sem eiga land að Jökulsá á Dal greiðslu fyrir sinn eignarhlut í snjónum sem nýtist Landsvirkjun til raforkuframleiðslu í Fljótsdalsvirkjun, öðru nafni Kárahnjúkavirkjun.

Þetta gæti leitt til enn einnar spurningar. Hvað felst í því að eiga náttúruauðlind? Í dæminu um snjóinn er eignarrétturinn fyrst og fremst, kannski einvörðungu, rétturinn til að nýta auðlindina.

Hver er þá munurinn á því að eiga auðlind og hafa rétt til nýtingar hennar? Hver er til dæmis munurinn á því að eiga jörð og því að eiga fiskveiðikvóta? Er ekki hvort tveggja spurning um rétt til nýtingar viðkomandi auðlindar? Spyr sá sem ekki veit.

Í raun hef ég engu svarað um eignarrétt á fiskinum í sjónum. Svar við þeirri spurningu hlýtur  að eiga heima í löggjöf sem tekur tillit til eignarréttar eða öðru nafni nýtingarréttar í mun víðtækari merkingu en svo að það eigi heima í lögum um fiskveiðstjórnun.


Má ekki segja sannleikann?

Það hefur verið ljóst öllum sem það hafa viljað sjá að Ólafur Ragnar Grímsson hefur frá upphafi ferils síns sem forseti viljað vera pólitískur forseti. Ummæli Steingríms og Össurar eru bara staðfesting á þessu. Hvers vega má ekki segja frá þessu? Það væri nær að huga að Stjórnarskránni sem segir í meginatriðum að forsetinn eigi að vera ópólitískur. Spurningin er þá bara þessi: Vilja Íslendingar hafa ópólitískan forseta líkt og forverar Ólafs voru eða vilja menn fá að kjósaa sér pólitískan forseta sem þá væri um leið forsætisráðherra líkt og gerist í Frakklandi og USA?
mbl.is „Lýðræðinu ekki til framdráttar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskráin, samningur milli forseta og Alþingis?

Viðtal við prófessor Ragnhildi Helgadóttur um stjórnarskrána birtist í nýjasta Timariti Háskólans í Reykjavík. Ýmsan fróðleik er þar að finna, meðal annars þá skoðun að of margt í stjórnkerfi landsins styðjist við óskráðar hefðir. En þar kemur líka í ljós að mínu mati að prófessorinn á við sama vanda að glíma og alþingismenn og fleiri þegar ræða skal um stjórnarskrána og breytingar á henni almennt. Það eru of mörg álitamál til að unnt sé að gera þeim öllum skil nema í mjög löngu máli. Þetta er eflaust ástæðan til þess að engin heildarendurskoðun hefur enn náð fram að ganga.

Ragnhildur segir að ýmislegt jákvætt hafi komið fram í tillögum stjórnlagaráðs, nefnir þó engin dæmi. Hún lætur hjá líða að segja að sitt hvað neikvætt hafi líka komið þar fram. Hugsanlega er hún þeirrar skoðunar að þar hafi ekkert verið neikvætt. Mitt mat er að umræða um sitthvað neikvætt við núverandi stjórnarskrá sé nauðsynleg forsenda þess að af jákvæðri endurskoðun verði. Í slíkri umræðu þarf að taka tillit til þess að stjórnarskráin kemur fleirum við en alþingismönnum og lögfræðingum auk ýmissa sérvitringa. Almennigur þarf að vera með í umræðunni. Ég nefni hér eitt atriði.

Íslendingar fengu fyrstu stjórnarskrá sína 1874. Hún var ákveðin einhliða af Kristjáni IX Danakóngi sem samningur milli hans fyrir hönd danskra stjórnvalda og Alþingis um valdmörk og skiptingu verka milli konungs og Alþingis. Að breyttu breytanda er gildandi stjórnarskrá samningur milli forseta Íslands fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og Alþingis um valdmörk og skiptingu verka milli þessara aðila ákveðinn einhliða af Alþingi. Forseti hefur enga aðkomu að þessum samningi. Nokkur ákvæði um réttindi og skyldur almennings fylgja með í kaupbæti í báðum tilvikum. Íslendingar samþykktu þennan samning fyrir sitt leyti árið 1944, margir hverjir án efa án þess að gera sér fulla gein fyrir innihaldinu. Það var jú nauðsynlegt að hafa stjórnarskrá ef stofna átti lýðveldi og losna undan yfirráðum Dana,

Stjórnlagaráð gerði ráð fyrir óbreyttu ástandi að þessu leyti, en gerði um leið valdsvið forsetans enn óljósara en áður.

Er ekki kominn tími til að hugsa með lýðræðislegri og nútímalegri hætti um þessi mál? Hvernig væri að byrja á embætti forsetans? Á hann að vera valdalaus toppfígúra með lítt skilgreint valdsvið, svona álíka og gildir um konunga í Norður-Evrópu?  Á að sameina embætti forseta og forsætisráðherra og gera embætið að pólutísku embætti samanber Frakkland og Bandaríkin? Eða á forseti Alþingis að bæta við sig samskiptum við erlenda þjóðhöfðingja? Sjálfur er ég hallur undir pólitískan forseta.


Hvað skal standa í stjórnarskrá?

Borist hafa fréttir um að forsætisráðherra ætli að fara að skipa nefnd til að vinna að endurskoðun stjórnarskráarinnar. Þetta er engan veginn brýnasta verkefni þessarar ríkisstjórnarinnar. En fyrst málið á að komast á dagskrá væri ekki úr vegi að við, almenningur, tækjum okkur til og segðum álit okkar á hvað eigi að standa í stjórnarskránni og hvað ekki. Þetta er innlegg í slíka umræðu.

Í kjölfar hrunsins 2008 kom fljótlega upp umræða um að semja þyrfti nýja stjórnarskrá. Kastljósmenn fóru á stúfana að spyrja vegfarendur hvort þeir hefðu lesið stjórnarskrána. Það hafði enginn aðspurðra gert, en höfðu þó nasasjón af einstökum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég fór strax að hugsa að ný stjórnarskrá þyrfti að vera þannig úr garði gerð að hún væri auðlesin og jafnvel ekki lengri en svo að auðvelt væri að læra hana utanbókar líkt og gildir um trúarjátningu kirkjunnar. Ég setti saman drög að slikri stjórnarskrá og fékk þau birt í Morgunblaðinu. Ýmsir hrósuðu mér fyrir framtakið, en engin almenn umræða skapaðist.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan með þjóðfundum, stjórnlagaráði og umræðum á Alþingi sem því miður snerust meira um málsmeðferðina en efnisatriði stjórnarskrárinnar eða hvað eðlilegt væri að stæði í henni og fyrir hverja verið væri að semja slíkt plagg. Ég læt þessi atriði bíða að sinni. En ég hef haldið hugmynd minni vakandi með sjálfum mér og endurskrifað drögin nokkrum sinnum og þá tekið mið af ýmsu sem komið hefur fram um þessi mál. Nýjasta hugmynd mín er sú að kalla plaggið þjóðarsátt og að það sé inngangskafli að stjórnarskrá, sem þannig gæti verið mun viðameiri en gildandi stjórnarskrá, skipt í mörg eistök lög eða lagabálka sem lytu sömu reglu um endurskoðun og þjóðarsáttin sjálf. Stjórnarskráin öll yrði þannig samningur milli Alþingis og þjóðar. Endurskoðuninni mætti dreifa á mörg ár og taka fyrir ákveðinn þátt hverju sinni þannig að þjóðinn þyrfti ekki að taka afstöðu til heildarinnar í einu lagi. Ég mun gera frekari grein fyrir hugmyndum mínum síðar, en vona að fleiri séu tilbúnir að leggja orð í belg um þessa hugmynd mína eða sínar eigin hugmyndir sem þá hugsanlega ganga í allt aðra átt.

Hér á eftir fer nýjasta hugmynd mín af þjóðarsáttinni.

ÞJÓÐARSÁTT

Ísland er frjálst og fullvalda ríki frjálsra og fullvalda Íslendinga.

Ísland er lýðræðisríki byggt á heiðarleika, jafnrétti, mannkærleika og umburðarlyndi og með virðingu fyrir landi og þjóð, náttúruauðlindum lands og sjávar og þjóðlegum verðmætum.

Alþingi fer með löggjafarvald og eftirlit með framkvæmdavaldi og dómsvaldi,

Ráðherrar, ríkisstjórn og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdavaldið

Dómstólar fara með dómsvaldið.

Þjóðarsátt þessi er hluti af stjórnarskrá lýðveldisins Íslands en auk hennar skulu öll lög sem eru nánari útfærsla á þjóðarsátt þessari og talin eru í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur vera hlutar hennar svo og lögin um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Þjóðarsátt þessari svo og öðrum lögum sem teljast hluti stjórnarskrár Íslands má breyta með atkvæðum  minnst 60% alþingismanna, enda hljóti slík breyting samþykki meirihluta kjósenda í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu þó aldrei með minni atkvæðastyrk en 40% þeirra sem eru á kjörskrá.

 


Um bloggið

Sigurbjörn Guðmundsson

Höfundur

Sigurbjörn Guðmundsson
Sigurbjörn Guðmundsson
Verkfræðingur, ellilífeyrisþegi, áhugamaður um þjóðfélagsumræðu
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband