1.9.2013 | 14:29
Hvað skal standa í stjórnarskrá?
Borist hafa fréttir um að forsætisráðherra ætli að fara að skipa nefnd til að vinna að endurskoðun stjórnarskráarinnar. Þetta er engan veginn brýnasta verkefni þessarar ríkisstjórnarinnar. En fyrst málið á að komast á dagskrá væri ekki úr vegi að við, almenningur, tækjum okkur til og segðum álit okkar á hvað eigi að standa í stjórnarskránni og hvað ekki. Þetta er innlegg í slíka umræðu.
Í kjölfar hrunsins 2008 kom fljótlega upp umræða um að semja þyrfti nýja stjórnarskrá. Kastljósmenn fóru á stúfana að spyrja vegfarendur hvort þeir hefðu lesið stjórnarskrána. Það hafði enginn aðspurðra gert, en höfðu þó nasasjón af einstökum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég fór strax að hugsa að ný stjórnarskrá þyrfti að vera þannig úr garði gerð að hún væri auðlesin og jafnvel ekki lengri en svo að auðvelt væri að læra hana utanbókar líkt og gildir um trúarjátningu kirkjunnar. Ég setti saman drög að slikri stjórnarskrá og fékk þau birt í Morgunblaðinu. Ýmsir hrósuðu mér fyrir framtakið, en engin almenn umræða skapaðist.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan með þjóðfundum, stjórnlagaráði og umræðum á Alþingi sem því miður snerust meira um málsmeðferðina en efnisatriði stjórnarskrárinnar eða hvað eðlilegt væri að stæði í henni og fyrir hverja verið væri að semja slíkt plagg. Ég læt þessi atriði bíða að sinni. En ég hef haldið hugmynd minni vakandi með sjálfum mér og endurskrifað drögin nokkrum sinnum og þá tekið mið af ýmsu sem komið hefur fram um þessi mál. Nýjasta hugmynd mín er sú að kalla plaggið þjóðarsátt og að það sé inngangskafli að stjórnarskrá, sem þannig gæti verið mun viðameiri en gildandi stjórnarskrá, skipt í mörg eistök lög eða lagabálka sem lytu sömu reglu um endurskoðun og þjóðarsáttin sjálf. Stjórnarskráin öll yrði þannig samningur milli Alþingis og þjóðar. Endurskoðuninni mætti dreifa á mörg ár og taka fyrir ákveðinn þátt hverju sinni þannig að þjóðinn þyrfti ekki að taka afstöðu til heildarinnar í einu lagi. Ég mun gera frekari grein fyrir hugmyndum mínum síðar, en vona að fleiri séu tilbúnir að leggja orð í belg um þessa hugmynd mína eða sínar eigin hugmyndir sem þá hugsanlega ganga í allt aðra átt.
Hér á eftir fer nýjasta hugmynd mín af þjóðarsáttinni.
ÞJÓÐARSÁTT
Ísland er frjálst og fullvalda ríki frjálsra og fullvalda Íslendinga.
Ísland er lýðræðisríki byggt á heiðarleika, jafnrétti, mannkærleika og umburðarlyndi og með virðingu fyrir landi og þjóð, náttúruauðlindum lands og sjávar og þjóðlegum verðmætum.
Alþingi fer með löggjafarvald og eftirlit með framkvæmdavaldi og dómsvaldi,
Ráðherrar, ríkisstjórn og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdavaldið
Dómstólar fara með dómsvaldið.
Þjóðarsátt þessi er hluti af stjórnarskrá lýðveldisins Íslands en auk hennar skulu öll lög sem eru nánari útfærsla á þjóðarsátt þessari og talin eru í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur vera hlutar hennar svo og lögin um þjóðaratkvæðagreiðslur.
Þjóðarsátt þessari svo og öðrum lögum sem teljast hluti stjórnarskrár Íslands má breyta með atkvæðum minnst 60% alþingismanna, enda hljóti slík breyting samþykki meirihluta kjósenda í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu þó aldrei með minni atkvæðastyrk en 40% þeirra sem eru á kjörskrá.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Sigurbjörn Guðmundsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.