Færsluflokkur: Stjórnlagaþing

Ný ríkisstjórn

Ný ríkisstjórn er að tekin við völdum. Fróðlegt er því að sjá hver aðdragandi að myndun hennar hefði orðið ef tillögur stjórnlagaráðs að stjórnarskrá hefðu verið komnar í gildi og hvort menn séu vissir um að sama niðurstaða hefði fengist með aðferðafræði stjórnlagaráðs.

Fyrst ber að nefna: „Alþingi kýs forsætisráðherra.“ Forsætisráðherra hefði þannig ekki þegið vald sitt frá forseta Íslands heldur frá Alþingi. Núverandi ástand er arfleifð frá þeim tíma þegar konungur hafði æðsta vald í öllum málefnum landsins, og fór með framkvæmdavaldið, að minnsta kosti að nafninu til, en fól það sérstökum ráðgjafa sínum og síðar ráðherra.

Í öðru lagi: „Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra.“ Ef ráðherraefni að vali forsetans (gæti hér hafa verið Bjarni Benediktsson) nær ekki atkvæðum meirihluta þingmanna skal forseti endurtaka leikinn. Ef ráðherraefni númer tvö að vali forseta (gæti hér hafa verið Katrín Jakobsdóttir) nær heldur ekki meirihluta atkvæða þingmanna skal Alþingi kjósa milli þeirra manna sem tilnefndir eru af „þingmönnum, þingflokkum og forseta Íslands“. Sá sem flest atkvæði fær í þvi kjöri er rétt kosinn forsætisráðherra. (Hér hefði Birgitta Jónsdóttir getað verið tilnefnd af forsetanum, Bjarni Benediktsson af Sjálfstæðisflokki, Katrín Jakobsdóttir af Vinstri grænum, Benedikt Jóhannesson af Viðreisn, Steingrímur J. Sigfússon af sjálfum sér o.s.frv.)

Þegar hér er komið sögu á eftir að semja stefnuskrá fyrir ríkisstjórn og velja aðra ráðherra en forsætisráðherrann, og í þeim efnum verður hinn nýkjörni forsætisráðherra að láta hendur standa fram úr ermum því: „Forseti Íslands skipar forsætisráðherra í embætti. Forsætisráðherra skal samhliða skipa  aðra ráðherra í embætti.“

Allar tilvísanir innan gæsalappa hér að framan eru teknar úr grein 90 í stjórnarskrártillögum stjórnlagaráðs og að öðru leyti stuðst við þá grein.

Ég er ekki sannfærður um að aðferðafræði stjórnlagaráðs sé rétt eða heppileg. Það er að vísu jákvætt að með henni væri fækkað atriðum í stjórnarskrá Íslands sem eru eftirstöðvar af „konungdæminu Íslandi“ og eiga ekki endilega við fyrir „lýðveldið Ísland“. Væri samt ekki heppilegra að ganga skrefinu lengra með því að þjóðin kjósi forsætisráðherra samhliða hverjum Alþingiskosningum? Og hvað með að nota tækifærið og sameina embætti forsætisráðherra og forseta?

Ég legg til að væntanleg stjórnarskrárnefnd taki þetta atriði til athugunar. Auk þess legg ég til að nefndin stingi ekki tillögum sínum undir stól fram undir endanlega afgreiðslu þeirra heldur birti þær opinberlega jafnharðan þannig að þjóðinni gefist kostur á að ræða þær og meta.

Talandi um stjórnarskrána, hvernig væri að byrja loks á byrjuninni og ræða um hvaða ágallar eru á gildandi stjórnarskrá áður en byrjað er að semja viðauka við hana.


Valdhroki í boði stjórnarskrá

Í aðdraganda nýafstaðinna forsetakosninga kom vel í ljós hversu lítið stjórnarskrá landsins segir um valdsvið forsetans. Flestir voru frambjóðendurnir með einhver pólitísk markmið eins og þeir væru að fara í prófkjör vegna Alþingiskosninga. Frambjóðendurnir voru einnig mismunsndi í framgöngu. Sumir virtust auðmjúkir, jafnvel auðmjúkir fram úr hófi sumir hverjir. Einn úr hópi hinna auðmjúku náði kjöri og var það vel. Einnig bar á valdhroka meðal frambjóðenda, jafnvel enn meiri valdhroka en mátti finna hjá núverandi forseta á löngum ferli hans. Segja má að þessi valdhroki sé í boði stjórnarskrár vegna óljóss og stundum misvísandi ákvæða um valdsvið forseta. Í þessu ljósi má telja það með ólíkindum, jafnvel til háðungar starfandi stjórnarskrárnefnd, að hún skuli hafa sett sér sem meginreglu að ræða ekki um embætti forsetans í störfum sínum.

 


Um bloggið

Sigurbjörn Guðmundsson

Höfundur

Sigurbjörn Guðmundsson
Sigurbjörn Guðmundsson
Verkfræðingur, ellilífeyrisþegi, áhugamaður um þjóðfélagsumræðu
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband