Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ný ríkisstjórn

Ný ríkisstjórn er að tekin við völdum. Fróðlegt er því að sjá hver aðdragandi að myndun hennar hefði orðið ef tillögur stjórnlagaráðs að stjórnarskrá hefðu verið komnar í gildi og hvort menn séu vissir um að sama niðurstaða hefði fengist með aðferðafræði stjórnlagaráðs.

Fyrst ber að nefna: „Alþingi kýs forsætisráðherra.“ Forsætisráðherra hefði þannig ekki þegið vald sitt frá forseta Íslands heldur frá Alþingi. Núverandi ástand er arfleifð frá þeim tíma þegar konungur hafði æðsta vald í öllum málefnum landsins, og fór með framkvæmdavaldið, að minnsta kosti að nafninu til, en fól það sérstökum ráðgjafa sínum og síðar ráðherra.

Í öðru lagi: „Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra.“ Ef ráðherraefni að vali forsetans (gæti hér hafa verið Bjarni Benediktsson) nær ekki atkvæðum meirihluta þingmanna skal forseti endurtaka leikinn. Ef ráðherraefni númer tvö að vali forseta (gæti hér hafa verið Katrín Jakobsdóttir) nær heldur ekki meirihluta atkvæða þingmanna skal Alþingi kjósa milli þeirra manna sem tilnefndir eru af „þingmönnum, þingflokkum og forseta Íslands“. Sá sem flest atkvæði fær í þvi kjöri er rétt kosinn forsætisráðherra. (Hér hefði Birgitta Jónsdóttir getað verið tilnefnd af forsetanum, Bjarni Benediktsson af Sjálfstæðisflokki, Katrín Jakobsdóttir af Vinstri grænum, Benedikt Jóhannesson af Viðreisn, Steingrímur J. Sigfússon af sjálfum sér o.s.frv.)

Þegar hér er komið sögu á eftir að semja stefnuskrá fyrir ríkisstjórn og velja aðra ráðherra en forsætisráðherrann, og í þeim efnum verður hinn nýkjörni forsætisráðherra að láta hendur standa fram úr ermum því: „Forseti Íslands skipar forsætisráðherra í embætti. Forsætisráðherra skal samhliða skipa  aðra ráðherra í embætti.“

Allar tilvísanir innan gæsalappa hér að framan eru teknar úr grein 90 í stjórnarskrártillögum stjórnlagaráðs og að öðru leyti stuðst við þá grein.

Ég er ekki sannfærður um að aðferðafræði stjórnlagaráðs sé rétt eða heppileg. Það er að vísu jákvætt að með henni væri fækkað atriðum í stjórnarskrá Íslands sem eru eftirstöðvar af „konungdæminu Íslandi“ og eiga ekki endilega við fyrir „lýðveldið Ísland“. Væri samt ekki heppilegra að ganga skrefinu lengra með því að þjóðin kjósi forsætisráðherra samhliða hverjum Alþingiskosningum? Og hvað með að nota tækifærið og sameina embætti forsætisráðherra og forseta?

Ég legg til að væntanleg stjórnarskrárnefnd taki þetta atriði til athugunar. Auk þess legg ég til að nefndin stingi ekki tillögum sínum undir stól fram undir endanlega afgreiðslu þeirra heldur birti þær opinberlega jafnharðan þannig að þjóðinni gefist kostur á að ræða þær og meta.

Talandi um stjórnarskrána, hvernig væri að byrja loks á byrjuninni og ræða um hvaða ágallar eru á gildandi stjórnarskrá áður en byrjað er að semja viðauka við hana.


Valdhroki í boði stjórnarskrá

Í aðdraganda nýafstaðinna forsetakosninga kom vel í ljós hversu lítið stjórnarskrá landsins segir um valdsvið forsetans. Flestir voru frambjóðendurnir með einhver pólitísk markmið eins og þeir væru að fara í prófkjör vegna Alþingiskosninga. Frambjóðendurnir voru einnig mismunsndi í framgöngu. Sumir virtust auðmjúkir, jafnvel auðmjúkir fram úr hófi sumir hverjir. Einn úr hópi hinna auðmjúku náði kjöri og var það vel. Einnig bar á valdhroka meðal frambjóðenda, jafnvel enn meiri valdhroka en mátti finna hjá núverandi forseta á löngum ferli hans. Segja má að þessi valdhroki sé í boði stjórnarskrár vegna óljóss og stundum misvísandi ákvæða um valdsvið forseta. Í þessu ljósi má telja það með ólíkindum, jafnvel til háðungar starfandi stjórnarskrárnefnd, að hún skuli hafa sett sér sem meginreglu að ræða ekki um embætti forsetans í störfum sínum.

 


Um stjórnarskrá

Umræða um stjórnarskrá hefur tekið nokkurn fjörkipp um þessar mundir.

Forsetinn eyddi talsverðum tíma í það mál í þingsetningarræðu sinni. Hann sagði þó lítið ef nokkuð um efnislegt innihald slíks plaggs.

Þáverandi leiðtogi (e: captain) Skjalaþjófa (e: pirates) Birgitta Jónsdóttir vill að næsta kjörtímabil Alþingis verði stutt og fjalli nær einvörðungu um tvö mál. Annað þessara mála væri ný stjórnarskrá. Engin eiginleg umræða um hvert eigi að vera efnislegt innihald nýrrar stjórnarskrár fylgdi né mat á því í hverju núverandi stjórnarskrá er áfátt.

Árni Páll Árnason segir að vöntun á ákvæði um þjóðareign sjávarauðlinda í stjórnarskrá standi í vegi fyrir setningu laga um stjórnun firskveiða. Ég skora á Árna að birta skilgreiningu á orðinu þjóðareign án þess að nota orðin auðlind, sjávarútvegur eða landhelgi. Fleiri mættu spreyta sig á þessu verkefni.

Stjórnarskrárnefnd ætlar fljótlega að skila til Alþingis tillögum til breytingar á stjórnarskránni. Hér mun fyrst og fremst vera um að ræða viðauka við stjórnarskrána, til dæmis áðurnefnt þjóðareignarákvæði og ákvæði um hverjir megi krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um lagasetningu frá Alþingi. Í tengslum við fyrri viðaukann má spyrja: Hver á landið sem íslenska þjóðin byggir? Er það í þjóðareign, eða er það ekki í þjóareign? Ekkert segir um þetta í stjórnarskránni. Hér er ef til vill um svo sjálfsagðan hlut að ræða að ekki þurfi um það að ræða. En gildir þá ekki sama um sjóinn innan landhelgislínu Íslands? Spyr sá sem ekki veit.

Í tengslum við síðarnefnda viðaukann má spyrja: Hvers konar löggjöf er svo þýðingarmikil fyrir allan almenning að hún réttlæti þjóðratkvæðagreiðslu? Lítil sem engi umræða hefur farið fram á opinberum vettvangi um þetta atriði. Gott væri að byrja á því að fastsetja að slík mál þurfi atkvæði 2/3 allra alþingismann til samþykkta á þinginu og síðan meirihluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, þó ekki minna atkvæðamagn en 40% kosningarbæra manna, til að verða að lögum. Byrja má með því að gera bráðabyrgðaákvæðið um skilyrði breytinga á stjórnarskránni að varanlegu ákvæði. Greiða má atkvæði um slíka breytingu samhliða næstu forsetakosningum.

Byrja má strax á opinberri umræðu um stjórnarskrána og þá í upphafi hverju þarf að breyta, hvað eru úrelt ákvæði og hæfa ekki því stjórnarfari sem íslenska þjóðin hefur valið sér og hverra ákvæða er þörf til viðbótar.


Hvað skal standa í stjórnarskrá?

Borist hafa fréttir um að forsætisráðherra ætli að fara að skipa nefnd til að vinna að endurskoðun stjórnarskráarinnar. Þetta er engan veginn brýnasta verkefni þessarar ríkisstjórnarinnar. En fyrst málið á að komast á dagskrá væri ekki úr vegi að við, almenningur, tækjum okkur til og segðum álit okkar á hvað eigi að standa í stjórnarskránni og hvað ekki. Þetta er innlegg í slíka umræðu.

Í kjölfar hrunsins 2008 kom fljótlega upp umræða um að semja þyrfti nýja stjórnarskrá. Kastljósmenn fóru á stúfana að spyrja vegfarendur hvort þeir hefðu lesið stjórnarskrána. Það hafði enginn aðspurðra gert, en höfðu þó nasasjón af einstökum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég fór strax að hugsa að ný stjórnarskrá þyrfti að vera þannig úr garði gerð að hún væri auðlesin og jafnvel ekki lengri en svo að auðvelt væri að læra hana utanbókar líkt og gildir um trúarjátningu kirkjunnar. Ég setti saman drög að slikri stjórnarskrá og fékk þau birt í Morgunblaðinu. Ýmsir hrósuðu mér fyrir framtakið, en engin almenn umræða skapaðist.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan með þjóðfundum, stjórnlagaráði og umræðum á Alþingi sem því miður snerust meira um málsmeðferðina en efnisatriði stjórnarskrárinnar eða hvað eðlilegt væri að stæði í henni og fyrir hverja verið væri að semja slíkt plagg. Ég læt þessi atriði bíða að sinni. En ég hef haldið hugmynd minni vakandi með sjálfum mér og endurskrifað drögin nokkrum sinnum og þá tekið mið af ýmsu sem komið hefur fram um þessi mál. Nýjasta hugmynd mín er sú að kalla plaggið þjóðarsátt og að það sé inngangskafli að stjórnarskrá, sem þannig gæti verið mun viðameiri en gildandi stjórnarskrá, skipt í mörg eistök lög eða lagabálka sem lytu sömu reglu um endurskoðun og þjóðarsáttin sjálf. Stjórnarskráin öll yrði þannig samningur milli Alþingis og þjóðar. Endurskoðuninni mætti dreifa á mörg ár og taka fyrir ákveðinn þátt hverju sinni þannig að þjóðinn þyrfti ekki að taka afstöðu til heildarinnar í einu lagi. Ég mun gera frekari grein fyrir hugmyndum mínum síðar, en vona að fleiri séu tilbúnir að leggja orð í belg um þessa hugmynd mína eða sínar eigin hugmyndir sem þá hugsanlega ganga í allt aðra átt.

Hér á eftir fer nýjasta hugmynd mín af þjóðarsáttinni.

ÞJÓÐARSÁTT

Ísland er frjálst og fullvalda ríki frjálsra og fullvalda Íslendinga.

Ísland er lýðræðisríki byggt á heiðarleika, jafnrétti, mannkærleika og umburðarlyndi og með virðingu fyrir landi og þjóð, náttúruauðlindum lands og sjávar og þjóðlegum verðmætum.

Alþingi fer með löggjafarvald og eftirlit með framkvæmdavaldi og dómsvaldi,

Ráðherrar, ríkisstjórn og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdavaldið

Dómstólar fara með dómsvaldið.

Þjóðarsátt þessi er hluti af stjórnarskrá lýðveldisins Íslands en auk hennar skulu öll lög sem eru nánari útfærsla á þjóðarsátt þessari og talin eru í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslur vera hlutar hennar svo og lögin um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Þjóðarsátt þessari svo og öðrum lögum sem teljast hluti stjórnarskrár Íslands má breyta með atkvæðum  minnst 60% alþingismanna, enda hljóti slík breyting samþykki meirihluta kjósenda í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu þó aldrei með minni atkvæðastyrk en 40% þeirra sem eru á kjörskrá.

 


Um bloggið

Sigurbjörn Guðmundsson

Höfundur

Sigurbjörn Guðmundsson
Sigurbjörn Guðmundsson
Verkfræðingur, ellilífeyrisþegi, áhugamaður um þjóðfélagsumræðu
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband